Tuesday, April 30, 2013

Ég og strákarnir skófum fræ úr kirsuberjatómötum og paprikum fyrir stuttu, þurrkuðum þau í nokkra daga og gróðursettum þau svo í þessu fína flotta mini gróðurhúsi. Og ekki leið á löngu fyrren að það fór að kíkja eitthvað uppúr moldinni. Strákarnir (og ég) eru rosa spenntir yfir þessu og fylgjast vel með. Það er mikill munur bara á einum degi. Þeir skiptast á við að vökva og draga frá gluggunum þannig að sólin nái að skína á.

Kjúllaboxin úr Nóatúni nýtast mjög vel sem svona mini gróðurhús. Algjör snilld!





Tómata plantan hefur smá forskot og rís hátt, miðað við hinar.



Það verður gaman að fylgjast með þessu í sumar :)

Sunday, April 28, 2013

Ég fékk fyrirspurn fyrir stuttu um hvort að ég væri til í að sauma gjafapúða. Og satt að segja, þá hafði ég engan tíma þar sem að ég stend á haus í verknámi, verkefnavinnu og prófatörnin frammundan. En mig klæjaði í puttana af fráhvarfseinkennum og gat ekki sagt nei. Og mikið rosalega er ég fegin að hafa sagt já! :)


Svo sætur. Og mjúkur og kósí! Ytrabyrðið er úr flónel sem að ég fann í Virku. Það er alveg ótrúlega mikið úrval af flottum efnum þar. Og erfitt að velja! Ég gæti ábyggilega eytt heilum degi þar bara við að skoða og klappa efnum, án þess að leiðast.
Annars bara sama snið og áður, hannað af mér. Innri púðinn er fylltur með ogguponsulitlum frauðkúlum. Sem er by the way ekki gaman að fá útum alla íbúð. Þá er nauðsýnlegt að eiga góða ryksugu ;)

Monday, April 22, 2013

Ég prjónaði húfu handa stóra strump í haust, en hann hefur stækkað svo mikið sl. ár að meir að segja húfurnar voru orðnar of litlar á hann! Þannig að ég fann til plötulopa og fitjaði upp á einhverju sem átti bara að vera skyndilausn. Mér fannst liturinn ekkert spes (búin að eiga hann lengi án þess að finna fyrir hann hlutverk) og ég vissi í rauninni ekkert hvernig útkoman yrði. En úr varð allavega húfa.








Húfan er úr tvöföldum plötulopa og prjónuð á prjóna nr. 5. Mig minnir að ég hafi fitjað upp rúmlega 80 lykkjur. Stærðin gæti gengið fyrir 5-10 ára og uppskriftin er uppúr sjálfri mér, einsog vanalega.
Gaman að segja frá því að þessi húfa hefur reynst alveg rosalega vel! Hún er hlý og þolir allskonar veður, og svo smellpassaði hún og var bara rosalega flott! Strumpur var líka þrususáttur með hana og hefur notað hana óspart í allan vetur. Svo gaman þegar að það rætist svona flott úr hlutunum :)



Friday, April 19, 2013


Fann mynd af hinum bílstólspokanum sem að ég sagði frá hérna. Þarna er hann alveg rjúkandi ferskur af saumavélinni. Ofsalega flottur, svona ef ég má segja það sjálf :)


Tuesday, March 26, 2013

Ég græjaði þessa fyrir 5 ára afmæli frumburðarins í fyrra sumar. Hann vildi sjóræningjaköku og auðvitað fékk hann það sem að hann bað um.




Ég nota yfirleitt súkkulaðiköku uppskriftina frá mommur.is og hún er sjúklega góð. Mæli mikið með henni. Uppskrift af smjörkremi má finna hérna. Ég nota þessa uppskrift líka í kremið sem fer á milli, en bæti þá alltaf við smá kaffi til að bragðbæta það aðeins. Sjóræninginn og pálmatréð fundust í dótakössunum inní barnaherbergi og eyjuna bjó ég til úr kókósmjöli og kakó. Skreytt svo með smartís og einu kerti. Þetta gerist ekki mikið einfaldara, og einsog oft áður þá eru það einföldu hlutirnir sem eru bestir. Við mæðginin vorum allavega bæði jafn ánægð með útkomuna :)

Nú styttist í 6 ára afmælið hjá þessum mola. Alltaf líður tíminn jafn hratt!

Sunday, March 17, 2013

Ég var ein að ferðast með strákana fyrir rúmu ári síðan, á meðan ég var enn ólétt, og var að fara í miðnæturflug. Einhvernvegin þurfti ég að leysa þann vanda sem blasti þá við, s.s. hvernig ætti ég að komast um með tvö sofandi lítil börn. Mér datt þá í hug að verða mér útum burðarsjal. Þá gæti ég borið eitt barn og ýtt hinu í kerru. En ég tímdi svo ekki fyrir mitt litla líf að kaupa svona sjal, þegar ég gat auðveldlega græjað svoleiðis sjálf fyrir lítinn pening. Þannig að við mamma grófum fram gamalt lak og ég hófst handa. Korteri seinna var ég svo komin með þetta fína burðarsjal. Það var nú ekkert sérlega vandað til verks, enda átti þetta bara að vera bráðabirgða lausn, en ég er samt búin að nota þetta sjal ótrúlega mikið. Þorgrímur hér um bil bjó í þessu sjali fyrstu 7-8 mánuði ævi sinnar. Ég fann þessar myndir til að sýna ykkur.





Þorgrímur er þarna um 5-6 mánaða gamall og við erum líklega nýkomin inn eftir að hafa sótt bræður hans í leikskólann. Hann er by the way í húfu þarna sem að ég prjónaði á hann úr merino/silki garni. Hann notaði hana líka mjög mikið. Æðisleg húfa!

Sjalið er sem sagt gert úr gömlu jersey laki og bómullarefni til að styrkja aðeins burðarþolið. Ég fann einhverjar leiðbeiningar bara með því að googla orðið baby wrap, en svo lét ég bara innsæi og ímyndunaraflið ráða. Þetta gerist ekki mikið einfaldara. Og þetta kostaði ekki neitt. Takk mamma :)

Burðarsjal er algjör snilld svona útá fyrir sig, en það er algjör bjargvættur og himnasending fyrir þriggja barna móðir! Þorgrímur er núna orðinn 15 mánaða og við erum enn að nota sjalið, samt bara heimavið. Við fjárfestum í Manduca burðarpoka svo þegar hann var 8 mánaða og við notum hann utandyra og í snattferðir. Ég get með sanni sagt að það var ein sú albesta fjárfesting sem að ég hef gert! Mæli mikið með honum.


Friday, March 8, 2013

Ég saumaði tvo svona bílstólspoka fyrir um ári síðan, en náði bara mynd af öðrum þeirra. Þeir voru báðir úr þessari efna- og litasamsetningu, en köttið framaná er eitthvað mismunandi.



Mér finnst þessi litasamsetning koma æðislega vel út, og hentar alveg jafn vel fyrir stráka sem stelpur. Reyndar voru þeir báðir pantaðir fyrir stelpur, en það skiptir svo sem engu máli :)