Tuesday, August 24, 2010

Þessi vinsæli..

Svartur og hvítur fiðrilda poki handa litlum ófæddum Ósk&Halldórssyni, en hann mun vera væntanlegur í heiminn í byrjun september.
Dísa dúkka situr fyrir sem módel.

Ég vil minna á það að ég sauma pokana samkvæmt óskum hvers og eins. Einnig er hægt að hafa innra byrðið úr bómull, ull eða bambus - en verðið á pokanum ræðst fyrst og fremst að efniskostnaði.

Thursday, August 19, 2010

Afmælisgjöf..

Mamma mín átti afmæli í lok júlí og ég prjónaði þetta vesti handa henni. Hún var búin að óska sér svona í fyrra, þannig að hún átti þetta inni hjá mér. Vissulega ætlaði ég að vera löngubúin að gera þetta, en það er alltaf einhvað sem kemur uppá og svo gleymast hlutirnir. En nú varð það allavega klárt.

Er hún ekki fín hún mamma mín?

Ég prjónaði þetta á meðan við keyrðum hringinn í kringum landið í sumar, þannig að það má segja það að það hafi farið víða.

Vestið er úr léttlopa og úr sauðalitum samkvæmt hennar ósk. Mynstrið er fengið hjá Ístex og heitir Vormorgun eftir Védísi Jónsdóttur. Ég er mjög sátt við útkomuna og ekki skemmir það að það bæði passar og fer mömmu minni svona ljómandi vel. :o)

Wednesday, August 11, 2010

Skírnargjöf..

Ég prjónaði þetta sett handa litlum prins í skírnargjöf. Hann var skírður um síðustu helgi og fékk hið fallega nafn Kristófer Sölvi.
Settið er úr merinoull og er því hlýtt, mjúkt og kósí fyrir svona lítið kríli.
Peysumynstrið er það sama og ég hef áður bloggað um, s.s. Kría úr Lopa 28, fyrir utan smávegis breytingar. Húfan er hinsvegar minn egin skáldskapur alveg frá grunni.
Ég vona að þetta egi eftir að nýtast nýja eigandanum vel :o)

Tuesday, August 10, 2010

Endurvinnsla..


Strumpurinn minn fékk nýja húfu núna í sumar, þar sem að hin var orðin of lítil. Það skemmtilega við þessa húfu er að efnið er í rauninni gömul samfella sem að hann átti á meðan hann var ungi. Ég var aldrei hrifin af samfellunni, þar sem að sniðið var e-ð kjánalegt - svona stutt og breitt, en hinsvegar fannst mér efnið skemmtilegt. Innra byrðið á húfunni er síðan úr hvítum bol sem að ég átti en var hætt að nota. Bæði efnin eru úr teygjanlegu bómullarefni.



Persónulega er ég rosalega ánægð með þessa húfu. Og þarf ég að nefna ánægjuna sem fylgir því að geta gefið gömlum hlutum nýtt líf? :o) Húfan veitir bæði vörn í sólinni án þess að vera of heit, en á sama tíma er hún alveg jafngóð gegn köldum vindi. Svona að lokum get ég sagt ykkur það að stjörnustrákurinn minn er himinlifandi yfir nýju stjörnuhúfunni sinni!


Hvað er betra en ís á heitum sumardegi? :o)

Sunday, August 8, 2010

Húfutetur..

Ég hef verið að fást við ýmislegt undanfarið sem ég er ekki alveg tilbúin að sýna ykkur hér, þar sem að sumt eru gjafir. En í stað þess að blogga ekki neitt ákvað ég að blogga um "gömul" afrek.


Ég saumaði þessa húfu s.l. haust. Upphaflega átti þetta bara að vera prufa þar sem að ég átti ekkert húfumynstur, en hún heppnaðist bara svo vel að ég hef ekki gert neinar endurbætur. Hún hefur verið vel notuð s.l. ár, en er orðin heldur lítil á Benedikt núna þannig að litlibróðir hefur fengið að erfa hana.


Húfan er tvöföld og er úr ljósbláu jersey að innan en brúnröndóttu jersey að utan. Efnið er keypt í Stoff&Stil.

http://www.stoffochstil.se/