Thursday, September 30, 2010

Engar kaldar tásur..

Hún Silla amma kenndi mér einusinni að prjóna sokka. Ég hef nú ekki prjónað mörg pör síðan og það er orðið ansi langt síðan þetta var, en ég ákvað að reyna að rifja upp tæknina í gær. Strákana vantar ullarsokka fyrir veturinn og ég SKAL gera þá sjálf!


Þetta byrjaði ágætlega, enda ekki mikið mál að prjóna stroff, en þegar að ég kom að hælnum þá vandaðist málið. Eftir smá bras og þónokkrar upprakningar kom þetta svo allt í einu hjá mér. Þetta er bara einsog að læra aftur að hjóla. Ekki það að ég hafi reynsluna af því samt ;o)

Einsog sést þá er garðurinn minn orðinn ansi haustlegur. Við tökum því bara fagnandi hér - enda stefnir allt í það að engum verði kallt á tásunum úr þessu :o)

Sokkarnir eru prjónaðir úr Sandnes Smart superwash á prjóna nr.3,5 og uppskriftin er uppúr sjálfri mér og ömmu. Ég gerði stroffið vel hátt þannig að það nái upp fyrir stígvélin og svo má líka bretta það niður. Unnar valdi litina sjálfur og er afar sáttur með nýju sokkana sína :o)

Monday, September 27, 2010

Meira haust..

Litríkt handa sólskínsbarninu mínu, sem er nánast alltaf glaður :o)


Mig hefur lengi langað að prjóna svona "eyrnaleppahúfu", en átti enga uppskrift þannig að þessi var frumraun og alger skáldskapur. Ég get ekki annað sagt en að hún hafi heppnast alveg svakalega vel :o) Hún er líka akkurat einsog ég vill hafa hana - hún fellur vel að höfði og skýlir því sem skýla þarf.

Ég prjónaði þetta vissulega í vor en strumpurinn er bara nýfarinn að nota hana núna. Ég notaði svo sömu aðferð þegar ég gerði þessa, nema ég minkaði hana aðeins.

Svo gerði ég auðvitað vettlinga í stíl.

Bæði húfan og vettlingarnir eru úr Sandnes Smart superwash og er það því bæði hlýtt og þolið, en líka létt og mjúkt.

Saturday, September 18, 2010

Uppskerutíð..




Ég setti niður nokkur fræ í byrjun sumars í von um að það yrði eitthvað úr þeim, og viti menn - það fer bara koma að uppskerutíð! Það varð nú reyndar ekki mikið úr þessu, því það urðu heilmikil afföll þegar við fórum hringinn í sumar og engin var heima til að vökva. En ég gleðst nú samt yfir þessu litla sem hefur náð að vaxa í gluggakistunni minni og hlakka til að bera það á borð :o)

Thursday, September 16, 2010

Sein afmælisgjöf..

Ég skammast mín fyrir að segja frá því að það er búið að taka mig næstum heilt ár að klára þessar ermar! Ég byrjaði á þeim í október í fyrra og hafði hugsað þær sem afmælisgjöf handa systir minni, en ég hef alltof oft lagt þær frá mér og steingleymt þeim. Veturinn var líka heldur annasamari en ella hjá mér... En nóg um það, nú eru þær LOKSINS tilbúnar, alveg mátulega fyrir næsta afmæli :o)
Ermarnar eru úr léttlopa og ég bætti við gullþræði í hluta að mynstrinu. Uppskriftin er fengin á istex.is.

Til hamingju með afmælið í fyrra elsku Svandís mín! Ermarnar koma ásamt afmælisgjöf þessa árs með póstinum fljótlega.

Monday, September 13, 2010

Ullarsmekkur..

Það er svo gaman að þróa hugmyndir :o)
Hérna er enn einn smekkurinn handa Unnar Frey, nema það að þessi er með 100% ull í stað fyrir flís. Upplagt núna þegar fer að kólna!

Fremra efnið er ljósblátt bómullar jersey en innra efnið var einusinni ullartrefill, sem hefur líklega þvælst óvart í þvottavél og þæfst. Þar af leiðandi var hann óhenntugur sem trefill, því hann skrapp það mikið, en var upplagður í smekk sem þennan.
Enn skemmtilegra er það að Silla amma eða Svavar afi áttu þennan trefil einusinni, og veitir því smekkurinn enn meiri hlyju og sjarma fyrir vikið!

Saturday, September 11, 2010

Slefsmekkur..

Þegar að litlir menn eru að taka tennur þá veitir ekki af að eiga nóg af slefsmekkjum. Svo eru þeir líka bara flottir og fullkomna oft lúkkið :o)
Ég var að sauma þennan handa Unnari, en hann er einmitt á fullu í tanntöku og slefar einsog hann fái borgað fyrir það.

Smekkurinn algjörlega í anda kreppukynslóðarinnar, sem Unnar Freyr er partur af. Rauða efnið var bómullar bolur sem pabbi hans átti og limegræna flísið aftaná voru afgangar sem ég hélt að væru í einskis nýttir. Endurvinnsla enn eina ferðina. Það er liggur við skemmtilegra að sauma þannig heldur en úr keyptum efnum!

Er hann ekki bara sætastur, snúðurinn minn?




Tuesday, September 7, 2010

Montmont..

Ég má nú til með að sýna ykkur þennan litla sæta sem kom í heimsókn til mín í gær :o) Mér til mikillar hamingju var hann klæddur í peysusettið sem að ég prjónaði handa honum í skírnargjöf fyrir stuttu.
Er hann ekki bara sætastur?


Gaman að sjá fötin í notkun. Þau fara honum líka svo vel!

Sunday, September 5, 2010

Eftiráhyggja...

Ég verð nú að viðurkenna það að gallinn sem að ég prjónaði á Unnar er heldur vel stór á hann. Hann er nú soddan písl miðað við aldur og notar ekki nema stærð 80, en það er miðað við einsárs. Hann verður 2 ára nú í lok mánaðarins.

Benedikt hefur verið voða hrifinn af gallanum og bað um að fá að máta hann. Og viti menn, hann smellpassar á hann! Þannig að líklega er þá gallinn nær 98 en 92, og spurning um að leyfa honum að nota hann í vetur. Ég prjóna þá bara annann á Unnar Frey..

Friday, September 3, 2010

Haustið er á leiðinni..

Það er farið að kólna úti og frískir haustvindar farnir að gera vart við sig. Maður verður bara að sætta sig við það að sumarið er búið og ný árstíð er gengin í garð. Það er ekki laust við það að það séu blendnar tilfinningar í gangi á þessum bæ, enda ber veturinn bæði gleði og streitu í skauti sér.

Ég var að enda við það að prjóna heilgalla úr léttlopa á Unnar Frey. Hvernig finnst ykkur?



Bæði flottur og henntugur að mínu mati, og einmitt upplagður innanundir pollagallann í vetur!



Ég studdist við uppskrift sem ég fékk niðrí Álafoss, en breytti þó það miklu að ég þori að setja DuleLur merkið á. Ég lengdi líka ermar, búk og skálmar töluvert þannig að gallinn myndi samsvara sér betur og ekki verða svona stuttur og breiður. Uppskriftin miðaði við stærð 86 en útkoman varð í rauninni rúmlega 92, eða heilu númeri stærra en ég átti von á, en það er þá bara betra því þá endist hann lengur. Enda hlýtur að koma að því að stubburinn fari að stækka eitthvað :o)